Monday, March 31, 2008

Verum í flæðinu

Þvílíkur léttir sem það er að skoða í öllum aðstæðum hvar vanmáttur minn liggur. "Já ok hér er ég vanmáttug og þarf því að gefa Guði það, best að sleppa því að rembast í þessu" og þá er líka alveg ljóst hvað það er sem ég get kallað mín verkefni. Guð er með það sem ég get ekkert gert með og hitt er eitthvað sem ég get gert eitthvað með:)

Og þá er bara að fylgja flæðinu í stað þess að ætlast til einhverrar útkomu. Eins og þegar bóndinn plægir akurinn, sáir í hann, sleppir tökunum á frostinu, hitanum og rigningunni því það er í Guðs höndum og svo slakar hann á til að sjá útkomuna.

Við getum ekki rifið blómið upp úr moldinni til að það vaxi, við verðum að bíða þolinmóð og sjá hvort fræið sem við sáðum og vökvunin (sem við sáum um) skili því blómi sem við vildum fá, því Guð sér um lífið, taoið, galdurinn:)

Ég heimsótti Sunnevu mína í gær og við mæðgur, allar þrjár, áttum góðan dag saman:)
Það var í mér mikill léttir þegar ég keyrði heim aftur og hlustaði á Amöndu mína syngja aftur í.
Amanda hefur ekki vilja heimsækja Sunnevu lengi því hún á svo skelfilegar minningar af því að heimsækja hana en nú sat hún syngjandi glöð aftur í og alveg ákveðin í því að koma með aftur næst:) Heimsóknin tók á Sunnevu og hún var orðin rosalega þreytt þegar við kvöddum en henni tókst vel að vanda sig og stíga aðeins út úr sjálfri sér;)
Þarna var ég í flæðinu því ég átti gott spjall við Amöndu áður en við fórum, ég keyrði uppeftir og var búin að gefa okkur leyfi til að fara ef heimsóknin yrði of erfið en útkoman var í hendi Guðs. Auðvitað að því teknu að við myndum allar vanda okkur og framkvæma okkur part.

Ég ætla að vera í flæðinu í dag og segja "Verði þinn vilji Guð í mínu lífi" og svo mun ég leggja inn mitt... Nú er ég að fara minn fyrsta vinnudag í nýja húsnæði Vímulausrar æsku - Foreldrahúss í Borgartúninu:):) mikið hlakka ég til.

Thursday, March 27, 2008

þreyta eða orkusöfnun

Það er ótrúlegt hvað það hefur þreytandi áhrif á mig þegar hún Sunneva mín sveiflast... nú lít ég svo á að páskafríið hafi verið orkusöfnun til að eiga innistæðu fyrir akkúrat þessu.. ég heyrði aftur í Sunnevu í gær og aftur í dag og talaði lengi lengi við hana. Í dag er hún ákveðin í að gefa sér séns og ég má heimsækja hana á sunnudaginn. Vó.. það eru liðnar 4 vikur síðan hún fór inn.

Hún er sem sé inni í meðferðinni ennþá:)
Ég er hinsvegar að leka niður af þreytu og Amanda mín líka svo við ætlum bara að borða eitthvað létt, lesa saman og kúra yfir mynd.

Ég hef verið að taka saman kvittanir og annað sem ég þarf að hafa klárt fyrir skattinn, Amanda hefur verið öflug í félagslífinu og hér er ávallt fullt hús af börnum:) Vinnan hefur tekið sinn toll líka, mikið að gerast hjá svo mörgum og svo erum við líka að flytja. Það hefur verið magnað að sinna vinnunni síðustu daga þar sem allt bergmálar og ég heyri sjálfa mig næstum endurtaka allt þrisvar;)
Ég náði að fara á fund í hádeginu og endurhlaða aðeins, mikið er ég þakklát fyrir þá andlegu fjölskyldu sem ég á þar:)

Wednesday, March 26, 2008

Sviptivindar

Já svona er að vera aðstandandi...
Í morgun voru fréttirnar mjög góðar en nú eru þær ekki eins góðar.

Sunneva mín sveiflast eins og aðrir fíklar. Hún hringdi rétt áðan og vill bara hætta í meðferðinni og telur sig ekki eiga séns. Þessi brotna sjálfsmynd í upphafi edrúgöngu og erfiðu tilfinningarnar herja á hana. Ég reyndi að hvetja hana til þess að gefast ekki upp, til að gefa sér séns og þegar ég var orðin þreytt á neikvæðu staðhæfingunum þá bara sagði ég henni að ég gæti ekki gert neitt í stöðunni og skellti á:/

Nú vona ég bara að hún haldist inni og snúi baráttu þrekinu í að gefa sér séns á meðan líðanin er ekki hliðholl henni.

Yfir til þín Guð.

Góðar fréttir

Ég er stöðugt að fá góðar fréttir af henni Sunnevu minni:)

Mæður sem fara í heimsókn til ungmenna sinna þarna uppfrá, uglingar sem hafa verið í heimsókn eða í meðferð með henni hafa verið dugleg að senda mér kveðjur frá henni og sagt mér í leiðinni hvað hún er heiðarleg, björt og að standa sig vel:) Það er heldur ekki leiðinlegt að fá að heyra það hversu rosalega hún er lík mér;)

Monday, March 24, 2008

Páskar

Ég er að ná úr mér þreytu sem hefur safnast upp. Rosalega hefur mikið gengið á hjá mörgum... það er eins og það hafi bara verið innrás í hinu andlega.
Ótrúlega margir sem hafa verið að falla í neyslu eftir einhvern stuttan tíma og sumir eftir einhvern lengri tíma og aðstandendur þeirra hafa dottið í gamla bresti, gömul mynstur og gömul áföll.

Það er ótrúlega erfitt að vera fíkill sem hvorki getur verið í neyslu né verið edrú því vanlíðanin er svo mikil. Neyslan er hætt að virka sem algert deyfilyf og einmanakenndin er órjúfanlegur þáttur tilverunnar, sektarkenndin bankar uppá þrátt fyrir að maður hafi tekið auka skammt og spennan sem var í loftinu hér áður er löngu orðin að gömlum vana. Lífið er tilgangslaust, fjölskylda og vinir farnir sinn veg og uppi situr fíkillinn með sig og sína ömurlegu sjálfsmynd. Þá er uppgjöfin einhver og best er að reyna að vera edrú. Edrúmennskan er samt frekar flöt til að byrja með því ýmindin er engin og þar með varnarkerfið slakt, á bak við hvað á fíkill að fela sig í þessu nýja umhverfi þar sem það þykir ekki sérlega flott að vera með neyslustolt og neyslusögur, ný skref sem vekja óhug því þau gætu brugðist, sektarkenndin kemur sterk inn, gömul sorg og ýmsar tilfinningar sem og kunnáttuleysi til að fást við allt þetta sem leitast hefur verið við að forðast.

En það er líka erfitt að vera aðstandandi þessa fíkils. Hvað þá foreldri fíkils... úfff... já það er eitt það erfiðasta sem ég hef upplifað allavega.
Foreldrar fíkils sem er virkur í sinni neyslu eru stöðugt með dauðaógn yfir sér, þau óttast daglega að fréttir berist af dauða fíkilsins síns, að einhver hafi skaðað barnið þeirra eða að barnið hafi skaðað einhvern annan. Þessir foreldrar eru að horfa á fjölskyldumeðlim sinn, barnið sitt í mikilli vanlíðan, í aðstæðum sem eru hættulegar og þau upplifa algeran vanmátt. Samt sem áður eru þau stöðugt að velta vöngum yfir því hvað sé best að þau geri fyrir ungann sinn, hvernig sé best að þau bregðist við.... "ætti ég að taka hann heim í dag? ætli það hjálpi til?" eða "ætti ég að setja mörk og setja honum línurnar? ætli það hjálpi til?" þessar hugrenningar eru endalausar og margir foreldrar sleppa fyrirhuguðum fríum og heimsóknum þar sem þau telja að þau þurfi að vera með fíkilinn sinn í gjörgæslu eða þar sem þau þora ekki að skilja heimilin sín eftir eftirlitslaus. Því oft er sú ógn líka yfirvofandi.
Að vera foreldri fíkils kallar fram ýmsar erfiðar tilfinningar og oft eru foreldrar orðnir svo ráðþrota og þreyttir, reiðir og yfirbugaðir af sorg og vanmætti að þeir upplifa ekki elsku til fíkilsins síns og fara þá að efast um eigið ágæti. Sekt og ásökun koma upp og orkuleysið verður algert.
Ef ég ætlaði að fara að setja niður allt það sem fíklar og aðstandendur fara í gegnum þá yrðu það margar margar síður... ég skrifaði hluta af afleiðingum neyslu dóttur minnar á mig á aðeins 9 blaðsíður... svo ég ætla að stoppa hér:)

En mig langar að segja frá því að ég tel að það sé nauðsynlegt fyrir fólk að fara að opna augun fyrir því að foreldrar fíkla þurfa mikinn skilning, hlýju, ást og hvatningu. Þegar einstaklingur er að fara í gegnum þessar erfiðu tilfinningar og horfir á barnið sitt í þessari erfiðu stöðu og vanmátturinn blossar upp þar sem foreldrar geta nánast ekkert gert í stöðunni nema að fá barnavernd með sér í lið og finna úrræði sem eru oft ekki í boði og þegar þau eru í boði er það ekki víst að fíkillinn geti nýtt sér úrræðið, þá er ekki á það ástand bætandi að þurfa að vera í felum með þetta því fordómar eru svo miklir. Það er ótrúlega oft sem ég heyri að foreldrar ungmenna í neyslu upplifi sig ein í heiminum en sem betur fer heyri ég líka sögur af foreldrum sem mæta hlýju og hjálpsemi. Eitt það mikilvægasta fyrir foreldra fíkla er að stíga fram og segja frá vandanum og því þykir mér svo mikilvægt að mæta þessum foreldrum án dómhörku.
Hjarta mitt er svo sannarlega fullt af kærleik bæði til fíkla og aðstandenda þeirra og vona ég að þjóðfélagið fari smátt og smátt að átta sig á því hvað fíknisjúkdómurinn er erfiður að fást við.

Æ já það var virkilega gott að fara á afmælisfund AA samtakanna í Laugardalnum og sjá allt þetta fólk .... fullt af fólki sem var í góðum gír og í góðum málum og hellingur til viðbótar að leita eftir lausninni:)

En sem sé ég er að ná úr mér þreytu eftir að hafa verið í mikill vinnutörn. Ég hef borðað heilan helling af súkkulaði og verið duglega að borða grænmeti og túnfisksalat með:)
Ég hef verið eins mikið í náttfötunum og ég hef getað en þó skroppið aðeins í hús.
Ég fékk að ná í skvísuna mína hana Sunnevu á föstudaginn langa og vera með henni í leyfi, við fórum til Keflavíkur og hittum þar Kidda afa, Dísu og færeyjinga sem studdu hana vel á sínum tíma og gera enn:) þau sögðu mér að þau litu stundum hér inná bloggið til að fá fréttir og sagði ég þeim að ég myndi héðan í frá updeita fréttir af okkur reglulega;)
Við Sunneva og Amanda áttum virkilega góðan heilan dag saman og nutum hans allar. Við fórum saman á afmælisfundinn og var það í fyrsta sinn og örugglega ekki það síðasta;) AA og Alanon hefur gert svo ótrúlega mikið fyrir okkar fjölskyldu.

Við Amanda höfum svo verið að njóta þess að vera saman:) það er það besta við fríin:) hvað við fáum mikinn tíma saman. Við höfum verið að fara í göngutúra, kapphlaup.. sú stutta er farin að hlaupa frekar hratt... úfff... við höfum verið að spila, horfa á myndir, fá krakka í heimsókn og chilla eins og við köllum það;)

Monday, March 17, 2008

Hvatning

Rosalega er það flott framtak hjá Mumma og götusmiðjunni að óska eftir samstarfi við sveitarfélögin að götuskjóli og götuheimili.

Allt of margir unglingar viðhafast á götunni og geta með engu móti verið heima hjá sér og virðast engin úrræði vera fyrir þennan hóp. Ég er reyndar á því að það muni ekki gefast vel að hafa bæði kynin saman og mæli með að þau verði aðskilin. En svona úrræði þarf og þá með góðu starfsfólki innanborðs:)

Eins þarf að útbúa áfangaheimili fyrir unglinga og þá fyrir bæði kynin. Þannig úrræði eru ekki fyrir hendi og tel ég að besti farvegurinn fyrir unglinga sem eru að koma úr meðferð sé þannig. Unglingur útskrifast úr meðferð, flytur inná áfangaheimili, nýtir sér Eftirmeðferð Foreldrahúss og foreldrar fari í Foreldrahópa svo mætti jafnvel bæta við MST fyrir þá sem eru enn yngri en 18 ára.

Ég styð Mumma heilshugar í þessum tillögum hans:)

Sunday, March 16, 2008

Stelpurnar mínar!

Inní konunni er egg
inní egginu er barn
inní barninu er beinagrind
inní beinagrindinni er hjarta
inní hjartanu er líf
í lífinu er sál
og inní sálinni er ég.

Amanda 7 ára.

Tilfinningar mínar!

Hver,
Hvar,
Hvernig?
Ég er aldrei ein, hún er alltaf með mér.
Ég vil það ekki lengur,
hún vill gera MÉR mein.
En ekki þér.
Þér líkar hún,
hún fellur inn
í hópinn.
Nú vil ég vera ein, fá að vera ég!
En hún er föst
Ég get ekkert gert.
Hvernig gerðist þetta?
Jú,
Ég bjó hana til, til að eignast vini
Nú skil ég að þeir eru vinir hennar ekki mínir,
Hún er ég!
Og þó.....

Sunneva 12 ára.

Friday, March 14, 2008

Góður Kennari

Ég fékk þessa sögu senda frá Kjartani og Höllu vinum mínum og vil endilega deila henni með ykkur:)

Dag einn bað kennari nemendur sína að skrifa nöfn bekkjarfélaganna á blað.
Þeir áttu að skrifa eitt nafn í hverja línu og hafa auða línu á milli.
Síðan bað hún nemendur sína að hugsa um það besta um hvern og einn og skrifa það fyrir neðan nafnið.
Þegar nemendur fóru úr tíma skiluðu þau blöðunum til kennarans sem fór með þetta
heim og bjó til lista yfir hvern nemanda og safnaði saman því sem bekkjarfélagarnir höfðu skrifað.
Síðan fengu nemendurnir þetta í hendurnar daginn eftir.
Þegar þeir lásu þetta urðu þeir hissa á öllu því jákvæða sem bekkjarfélagarnir höfðu
skrifað.
Þeir höfðu ekki gert sér grein fyrir að þeir skiptu svona miklu máli.
Kennarinn vissi ekki hve mikið nemendurnir ræddu þetta sín á milli eða við foreldrana en
þetta hafði tilætlaðan árangur. Nemendurnir urðu ánægðari með sig og aðra í bekknum, þeim leið betur.
Lífið hélt áfram.

Mörgum árum seinna lést einn nemendanna sem hét Magnús og kennarinn
ákvað að vera viðstaddur jarðarförina. Einn vinur hins látna gekk til
hennar og spurði hvort hún hefði verið kennarinn hans og sagði að Magnús hefði
talað mikið um hana. Foreldrar hins látna komu einnig til hennar og vildu sýna henni svolítið.
Þau höfðu fundið samanbrotið blað í veski Magnúsar og var það listinn með öllu jákvæðu
atriðunum frá bekkjarfélögunum sem kennarinn hafði fengið honum fyrir mörgum árum.
Þakka þér fyrir að gera þetta, því eins og þú sérð þá skipti þetta hann miklu máli sagði móðir Magnúsar.
Fyrrum bekkjarfélagar tóku undir það og sögðu að þessi listi hefði fylgt þeim öllum gegnum lífið og skipt þá mjög miklu máli. Þetta var eitt af því sem þeim þótti vænst um.

Þegar gamli kennarinn heyrði þetta settist hún niður og grét, bæði syrgði hún Magnús og
svo var hún hrærð yfir því að hafa snert nemendur sína með þessu uppátæki.
Flest okkar hegðum við okkur þannig eins og að við höfum gleymt því að
lífið endar einn góðan veðurdag. Enginn okkar veit hvenær sá dagur verður.
Þess vegna bið ég þig að segja við þá sem þér þykir vænt um hvað þeir séu
þér mikilvægir og eigi sérstakan stað í hjarta þér.
Gerðu það oft áður en það verður of seint.

Sýndu að þér er annt um vini þína. Mundu að þú uppskerð eins og þú sáir. Mundu að þú ert mikilvægur einhverjum.
Vona að dagurinn verði þér fínn og sérstakur því þú skiptir máli.

Orð í tíma töluð

Flottur pistill á baksíðu 24 stundir eftir Þóru Kristínu Ásgeirsdóttir.
Loksins sagði einhver þetta svona upphátt:)

Þóra talar um glaðar og faglegar hórur eða boðskapinn í þeim orðum;)
Hún gefur til kynna að partur af boðskapnum gæti verið sá að menn þurfi ekki að hafa samviskubit af því að kaupa vændi. Hún líkir einnig glöðum hórum við sátta eiturlyfjasjúklinga, það að vera glöð og fagleg hóra er því eins og ég skil það sama vörnin, afneitunin og réttlætingarkerfið og að vera sáttur og glaður eiturlyfjasjúklingur. Mikið er ég sammála þessu.

Þóra segir frá því að fleiri hafi leitað til Stígamóta vegna afleiðinga vændis og að sýnt hafi verið fram á að flestir sem stunda vændi glími við sömu áfallastreitu og þolendur kynferðisbrota. Þessu trúi ég vel. Ég hef fengið smá innsýn í einstaklinga sem hafa stundað vændi og lang flestir þeirra eru að fást við verulega erfiðar afleiðingar. Þegar ég tala um vændi þá á ég það til að setja strippdansara undir það orð því mér finnst það líka vera vændi. Ég sem sé hef fengið innsýn í einstaklinga sem stunda vændi með því að selja aðgang að sjálfum sér með eða án snertinga.

Ég man eftir þó nokkrum sem áttu sama mottó, ég sel samfarir en ekki kossa, og sumir selja aðgang að kossum, hlýju og snertingu en ekki beinum samförum. Nú svo eru það dansararnir sem selja ýmind, það að kveikja losta, kynlífsdrauma, þrá og oftar en ekki eitthvað meira.

Í öllum þeim tilfellum sem ég hef þekkt til eða heyrt um þá hafa þessir einstaklingar átt í tilfinninga vanda, upplifað skömm, átt erfitt með sjálfsmyndina, haft lítið sjálfstraust nema þegar kom að kynlífi og átt erfitt með að mynda tengsl eða nánd án kynlífs, fyrir utan gremjuna, reiðina og fyrirlitinguna sem virtist oft beinast að sjálfum þeim og þeim sem keyptu vændið.

Ég hef heyrt um glaða og faglegar hórur sem hafa svo endað líf sitt sjálfar og kom nú ein fram opinberlega og sagði frá því hvað hún hefði það gott og liði vel með það sem hún var að gera en stuttu síðar tók hún sitt eigið líf.

Oft hef ég heyrt um konur sem hafa verið að stunda vændi og viðmælandi minn hefur sagt með lotningu "hún gerir þetta til að halda uppi fjölskyldu sinni" eins og vændið sé stundað af góðmennsku einni saman eða að konan hafi ekki um annað að velja.

Ég veit um ótal konur hér á Íslandi hvort sem þær eru íslenskar eða ekki sem vinna hin ýmsu störf til að halda uppi fjölskyldum sínum og ég hef aldrei heyrt sagt með lotningu "hún vinnur við skúringar til að halda uppi fjölskyldunni"

Ég held að einstaklingar sem stunda vændi þurfi á hjálp að halda alveg eins og fíklar og aðrir sem fara út í sjálfskaðandi hegðun.

En eins og Þóra sagði svo vel í sínum pistli:
"Glaðar hórur, hamingjusamir þrælar, hressir eiturlyfjaneytendur. Það veitir ekki af slíkum persónum til að lappa upp á vonda samvisku"

Wednesday, March 12, 2008

Ferða og lærdómsár

Ég fékk þær upplýsingar í svettinu að ég væri á ljósbláu ári, þegar ég spurði hvað það þýddi þá var mér sagt að þetta væri ferðaár í ár hjá mér.

Ég get nú ekki annað en brosað þar sem árið mitt lítur svo sannarlega þannig út:

Ég er að fara til London í mai á fagráðstefnu fyrir mitt fag, Dómsmálaráðuneytið ásamt öðrum munu stykja mig til þess:)
Ég er að fara á vegum vinnunnar með unglingana í Eftirmeðferðinni til Lansarote í júní.
Ég er að fara til Arizona í þjálfun hjá einum flottasta fagaðila á sínu sviði, henni Piu Mellody sem starfar hjá The Meadows, ég fer þangað í nóvember og sér Vímulaus æska alveg um þá ferð.
Nú eru yfirkonur mínar að velta því fyrir sér að senda mig til Svíþjóðar í september til að fara á ráðstefnu þar fyrir grasrótaraðila í alkahól og vímuefnaheiminum.
Ég sjálf hafði stefnt á að fara til Nepal í október með vinum mínum til að rafta og skoða Nepal, nú er ég ekki viss um að ég komist í þá ferð þar sem fjármál mín hafa tekið óvænta stefnu. Líklega þarf ég að fresta þeirri ferð eitthvað.

Ég mun sem sé ferðast töluvert og læra heilan helling í leiðinni:)

Svo er hellingur af námskeiðum og ráðstefnum hér heima líka....
t.d. kemur John Bradshow til landsins í mai, Blátt Áfram verður með ráðstefnu, félagsmálaráðuneytið er með ráðstefnu um Foreldrahæfni og svo má áfram telja....

En nú er að njóta núsins en leyfa sér að hlakka til :)

Þegar Guð talar

Eins og þið sem lesið þetta blogg mitt vitið þá er ég stöðugt að leita vilja Guðs fyrir mitt líf.
Ég átti tímabil á dögunum þar sem ég upplifði ekki tengingu mína við Guð og enn er ég stödd þar með sjálfa mig að hugsanir fóru að gera vart við sig... hahaha já það er alveg magnað , ha;)

nei án alls gríns þá fóru að koma upp hugsanir á þá leið að kanski væri ég bara ekki nógu góð fyrir Guð og að hann væri að hafna tengingu við mig, en sem betur fer þá hugsaði ég líka að kanski væri ég ekki að gera eitthvað af því sem ég þyrfti að vera að gera eins og að biðja, dvelja í kyrrð, þakka, fara í göngutúrana mína eða kanski ég væri bara ekki að hlusta...

Svo ég fór að biðja á hverjum degi "Guð hjálpaðu mér að viðhalda tengingu við þig"
Ég fór ekki að upplifa neitt sterkari tengsl við Guð en ég fór að vakna mun fyrr á morgnana, ég var alltaf vöknuð áður en vekjaraklukkan mín hringdi.
Suma daga fagnaði ég því, því það þýddi að ég gat gefið mér meiri tíma í að biðja og hugleiða en aðra daga varð ég pirruð og reyndi eins og ég gat að sofna aftur.

Svo fór ég síðustu helgi og heimsótti Kidda minn og í okkar spjalli sem snérist um heima og geima og líka um Guð:) þá sagði hann mér frá versi í biblíunni sem hefur ekki vikið frá mér síðan. Ég sagði Kidda ekki frá því sem ég hafði verið að upplifa en þetta vers talaði alveg til mín, beint inní þessar aðstæður mínar:) og þá upplifi ég að Guð sé að tala.

Þetta vers kom mér á réttan stað, í von, í trú, í gleði yfir því að Guð er og hann er trúfastur og hann hefur ekki hafnað mér;)
Þegar ég las versið þá las ég bara síðari hluta þess því það talaði til mín þá en í dag las ég það allt og VÁ!! Já það talar til mín alla leið. Hér kemur svo þetta magnaða vers:)

Jes. 50:4
Hinn alvaldi Drottinn hefir gefið mér lærisveina tungu, svo að ég hefði vit á að styrkja hina mæddu með orðum mínum.
Hann vekur mig á hverjum morgni, á hverjum morgni vekur hann eyra mitt, svo að ég taki eftir, eins og lærisveinar gjöra.

Nú minni ég mig á þetta á hverjum degi og fagna því að vakna áður en vekjaraklukkan hringir:):) því þá á ég stefnumót við Guð:)

Sunday, March 9, 2008

Innsýn í móður fíkils

Mig langar að gefa ykkur smá innsýn í tilfinningar mínar sem móður fíkils. þetta bréf er skrifað þegar dóttir mín var byrjuð neyslu en vildi ekki viðurkenna hana, árið 2005.

"Ég ákvað að skrifa þér þetta bréf þar sem tilfinningar okkar verða oft fyrir því sem við viljum segja við hvor aðra. Ég vil gjarnan að þú þekkir og vitir hvað það er sem ég hef reynt að segja og þrái að segja við þig.

Líðan þín hefur verið frekar slæm undanfarið og það tekur mig sárt að geta ekki nálgast þig eða hjálpað þér. Mig hefur langað að halda utan um þig, strjúka þér um vanga, umvefja þig og leysa vandann fyrir þig.
Ég þrái svo mjög að geta verið þér sú mamma sem þú þarft.

Þú hefur verið að rifja upp særindi þín og reiði þína frá barnsæsku þinni og síðustu árum. Ég sé reiði þína og ég sé sársauka þinn og mér finnst gott að þú getur talað um það og grátið. Ég veit að ég hef oft gert mistök eða verið of veiklynd til að vera sú mamma sem þú vildir að ég hefði verið. Ég vildi svo að ég gæti breytt því en það er eitthvað sem ég bara get ekki.
Mér þykir það leitt að hafa brugðist þér.
Allan tímann og enn í dag hef ég viljað þér það besta og ég hef gert mitt besta hverju sinni. Ég sé líka að oftast náðum við vel saman og oftast leið okkur vel saman. Og ég er þakklát fyrir allan okkar tíma saman. Sá tími hefur sett spor í karakter minn og einnig þinn.

Þú hefur mjög góðan grunn og þekkir vel muninn á réttu og röngu. Þú ert svo flott stelpa bæði að innan sem utan. Átt möguleika á öllu sem þig langar.

Ég elska þig og ég er til í "að vaða eld og brennistein" fyrir þig ef ég tel að það gagnist þér.
Ég vil að þú vitir að ég er til staðar fyrir þig ef þú vilt þyggja mína hjálp, stuðning, umhyggju, vinskap, eða félagsskap. En ég get ekki leyft þér að koma fram við mig með vanvirðingu, ókurteisi eða andlegu ofbeldi, það gerir þér alls ekki gott og það gerir mér alls ekki gott og er bara ekki góð fyrirmynd fyrir þig eða systur þína.
Þess vegna hef ég tekið þá ákvörðun að setja mörk.

Þú hefur hafnað mér og öllu sem ég hef viljað gera fyrir þig undanfarið og segir að ég eigi aðeins skilið ókurteisi, vanvirðingu og slæma framkomu af þinni hálfu svo ég ætla að draga mig til hlés. Láta mér þykja vænt um þig í fjarlægð og vona að einn daginn viljir þú samskipti við mig og jafnvel þyggja umhyggju mína eða hjálp á einhvern hátt.

Ég get líklega aldrei tjáð það með orðum eða á prenti hversu sárt mér finnst að stíga út í þennan kærleika að sleppa tökunum á þér og treysta öðrum fyrir þér. Og hversu sárt það er að upplifa mig ráðalausa gagnvart þér sem mér þykir svoooo óendanlega vænt um og vil geta hjálpað mest af öllum.
Ég óska þér alls hins besta fyrir þig og að þú fáir nóg af öllu sem þú þarft. Þú ert yndisleg og átt aðeins skilið það besta.

I wish you enough sun to keep your attitude bright.
I wish you enough rain to appreciate the sun more.
I wish you enough happiness to keep your spirit alive.
I wish you enough pain so that the smallest joys in life appear much
bigger.
I wish you enough gain to satisfy your wanting.
I wish you enough loss to appreciate all that you possess.
I wish you enough hellos to get you through.

Það var einu sinni gerð rannsókn á lifrum. Lifrum sem verða svo að fiðrildum. Vísindamönnum fannst svo einkennilegt að lifran þyrfti að brjótast úr púpu sinni sem er mikil áreynsla og mikið erfiði fyrir lifruna. Þeir ákváðu að auðvelda lifrunni verkið og klipptu aðeins í púpuna og skoðuðu svo hvaða áhrif það hefði. Án undantekninga þá urðu fiðrildin áttavillt og náðu aldrei almennilegu flugi. Þannig að vísindamennirnir áttuðu sig á því að ferlið í púpunni varð að eiga sér stað svo vængir fiðrildanna yrðu nægilega sterkir.

Ég hef kosið að nýta mína reynslu til að styrkja mig svo ég nái góðu flugi í mínu lífi og ég vona svo innilega að þú gerir slíkt hið sama. Gefðu þér séns á að fara að horfa á það góða í lífinu og það góða sem þér hefur hlotnast. Sem er svo ótal margt.

Þú hefur verið of upptekin af því sem hefur verið sárt og erfitt og nýtt þér það sem eldsneyti á reiði og sjálfsvorkun. Það er eðlilegt að reiði og sjálfsvorkun eigi sinn tíma og þurfi að fá sitt rúm en það er ekki gott að leyfa því að yfirtaka allt annað eða að nýta það sem eldsneyti á slæma hegðun sem er ekki góð fyrir þig né aðra.

Það var gerð rannsókn á vatni núna nýlega í Japan. Annarsvegar var vatn sett í krúsir þar sem áfestur var miði með jákvæðu orði eins og ást, umhyggja, gleði, von... og svo hins vegar í krúsir með áfestum miða með neikvæðu orði eins og hatur, vonleysi, gremja... þessar krúsir voru svo frystar og fólki leyft að skoða. Þegar kristallar vatnsins voru skoðaðir kom í ljós mikill munur á þeim krúsum sem vour merktar neikvæðu eða jákvæðu. Jákvæðu krúsirnar voru heilbrigðari, heilli og fallegri. Tærara vatn og fyllra af lífsorku. Svo það skiptir gríðalega miklu máli að vera jákvæður við erum jú hvað 70% vatn eða meira.

Elsku elsku, gefðu þér séns og vittu að þú átt mig að ef þú vilt hvort sem er núna eða síðar. Ég mun vera til staðar.

Kærleikskveðja

Þín mamma"

Wednesday, March 5, 2008

Ertu með?

Ég var að fletta í gömlum bloggfærslum og datt niðrá eitt gamalt og gott.. ákvað að skella því hér inn og endurnýja leikinn.

Settu nafn þitt í komment og ég mun svara

Leave your name and

1. I´ll respond with something random I like about you.
2. I´ll tell you what song/movie reminds me of you.
3. I´ll pick a flavor of Jello to wrestle with you in.
4. I´ll say something that only makes sense to me and you.
5. I´ll tell you my first/dearest memory of you.
6. I´ll tell you what animal you remind me of.
7. I´ll ask you something that I´ve always wondered about you.

If I do this you must post this on your blogg or journal:)

Saturday, March 1, 2008

Árið framundan

Svettið var unaðslegt;) ljúft og orkumikið, töfrandi og gott:)
Við vorum samankomin 11 frábærar konur og 5 kröftugir ungir menn ásamt Nonna og Heiðari. Skemmtileg blanda af fólki sem gat svo sannarlega skemmt sér vel á sama tíma og svettið var nýtt á mjög persónulegan hátt fyrir hvern og einn.
Ég naut mín og sleppti mér ;) Rosalega er langt síðan ég hef dansað..... ég nenni nefnilega ekki að fara að dansa á stöðum þar sem mikil drykkja er eða önnur neysla, oft er líka allt of þröngt og sígarettur í annarri hverri hendi, en ég elska að dansa, dansa minn eigin dans:)

Í dag ætlaði ég að rjúka í framkvæmdir hér heima en ég ákvað að bíða til morguns, ég hef verið svo þreytt og afslöppuð í dag:) enda kom ég ekki heim fyrr en undir fjögur í nótt.
Við mæðgur ætlum að breyta herberginu hjá Amöndu því hún vill auðvitað ekki lengur búa í barnalegu herbergi, nú verður updeitað og herberginu breytt í táningaherbergi:)

Ég er hér með rautt lítið skrifborð sem hefur litlar 3 skúffur og tvær hillur, fínt fyrir litlar dömur, svo ef einhver vill það endilega hafa samband við mig á meilið mitt dianaosk@gmail.com

Ég sit hér núna og horfi á mjög skemmtilegan þátt sem er blanda af tísku og tónlist, Samuel L Jackson og Uma eru að kynna og byrjunar atriðið var með Iggy Popp:) gamli rokkarinn stóð sig skemmtilega vel og dansaði um sem áður ber að ofan;) Ótrúlegt hvað hann heldur sér vel í formi og hvað vöðvarnir haldast uppi:)

Ég hitti gamlan góðan félaga og þótti mér vænt um að sjá að hann var ferskur, í vinnu, ábyrgur og glaður, þessi maður var alltaf mjög hlýr og hafði það greinilega ekki breyst:) Eitt af því sem ég met mikils í fari einstaklinga er að þeir séu sannir, hlýir og ábyrgir svo er auka bónus ef þeir eru sterkir og hugrakkir, blíðir og djúpir;)

Nú er ár rottunnar að byrja, ég er gul, þristur á ljósbláu ári:) sem þýðir að ég mun ferðast mikið og þarf að ýta frá mér hindrunum. Það hljómar vel. Ég vil leggja af stað með ný áform og nýjan kraft.

Ég er full tilhlökkunar og eftirvæntingar:) hvað hefur Guð fyrir mig þetta árið...