Wednesday, May 28, 2008

Útskrift

Jæja Færeyjar og aðrir sem að bíða frétta af Sunnevu:)

Það var ákveðið á samráðsfundinum að Sunneva myndi útskrifast á fimmtudaginn.. sem sé á morgun:)
Hún mun koma heim til mín og nýta sér þann stuðning sem stökkpall því stefnan er tekin á að hún fari að sjá um sig sjálf. Auðvitað verður hún alltaf með öryggislínu heim:) En fyrst um sinn mun hún búa hjá mér og við verðum að vanda okkur verulega. Við þurfum báðar að vera í beinteingingu við Guð, með sponsorana á línunni, með góða mætingu á fundina okkar og Sunneva verður í Eftirmeðferð. Þetta ætti að vera þétt og gott öryggisnet því við þurfum að passa okkur á að renna ekki í gömul hjólför þó að gömul sár rifjist upp.

Sunneva lítur vel út:) það er verulega bjart yfir henni, hún er bjartsýn og einbeitt í vilja sínum til að ná edrúmennsku. Hún hefur sýnt auðmýkt í okkar samskiptum og leitar Guðs. Nú hvet ég alla til að biðja fyrir henni.

Já það er útskrift á morgun:) Við Amanda munum bruna uppá Brúarholt til að vera viðstaddar útskriftina og svo tökum við skvísuna með okkur heim:)

Sunday, May 25, 2008

Áfram með viðburðarríka daga

Í kjölfar London ferðar þá var ég kölluð á fund hjá yfirmönnum frístundaheimilisins sem Amanda mín er í. Ég sat fundinn ásamt 3 yfirmönnum og við fórum yfir málið. Þau vildu leggja mikla áherslu á það að þau teldu málið mjög alvarlegt og að svona ætti ekki að gerast hjá ÍTR. Þau sögðust hafa farið vel yfir málið og að lögmaður borgar hafi lagt sitt mat fram, hans mat var að þetta væri ekki brottvísunarvert, þau hjá ÍTR ættu samt eftir að taka ákvörðun um hvað þau vildu gera í málinu.
Ég sagði þeim að Amanda myndi hætta ef þessi aðili kæmi aftur til vinnu því hvorki ég né Amanda treystum honum. Þau sögðu mér þá að líklega yrði hann færður til og kæmi líklega ekki aftur á frístundaheimilið þar sem Amanda er.
Ég sagði einnig að ef svona lagað kæmi fyrir önnur börn, ef starfsmaður bryti svona á einhverju öðru barni þá findist mér ég eiga rétt á að vita af því svo ég ætti sanngjarnt val um það hvort ég treysti þeim starfsmanni fyrir mínu barni og að ég vildi að aðrir foreldrar fengju þetta val í þessu tilfelli.

Ég var svo boðuð á annan fund þar sem gerandinn í málinu sat ásamt 3 yfirmönnum sínum, hann (gerandinn) kom til að biðjast afsökunar. Eins óskaði hann eftir því að fá að biðja Amöndu afsökunar en miðað við frammistöðu hans og mína upplifun á honum á þessum fundi þá ákvað ég að það væri ekki gott fyrir Amöndu. Að mínu mati var maðurinn mjög ótrúverðugur og treysti ég honum ekki til þess að eiga þetta spjall við Amöndu.

Ég sagði samt Amöndu frá því að hann hafi viljað biðja hana afsökunar og þá voru viðbrögð hennar mjög skýr "Ég vil það ekki !!"

Stuttu síðar fékk ég svo símhringingu þar sem umsjónarkona frístundaheimilisins sagði mér að gerandinn hafi verið fluttur til í starfi.

Ég er ótrúlega stolt af því hvernig ég tæklaði þetta mál, ég stóð vel með mér og með Amöndu minni.. sem og öðrum börnum:)
Ég geng sátt frá þessu verkefni.

Nú svo tók við enn einn fundurinn:) samráðsfundur hjá Sunnevu minni og ég mun skrifa um hann hér þegar ég hef meiri tíma nú kalla krakkarnir sem gistu hér í nótt og vilja fá smá athygli:)

Við vorum með Júróvísjon krakkapartý hér í gærkveldi og fengu bæði Birta og Fannar frændi að gista hjá okkur. Fulltrúar Íslands stóðu sig að mínu mati mjög vel og opnuðust augu mín fyrir orkuboltanum Friðriki... rosalega fannst mér hann flottur og gera þetta vel. Regína var kennari í söngskólanum þegar Amanda var að læra og Amanda hélt sko með sinni:):)
14. sæti þrátt fyrir að þetta sé nánast alveg pólitískt kosið, kalla ég GOTT.

Þar til næst........

Wednesday, May 21, 2008

Viðburðarríkir dagar... heldur betur

Lífið er heldur betur hressandi hjá mér þessa dagana.

Ég fór eins og þið ivtið til London og skemmti mér ótrúlega vel þar. Ég elska þessa borg hún er eins og sniðin að mér:) Ég sem hef yfirleitt alls ekki gaman af því að versla eða fara í búðir, gat unað mér ágætlega í búðarrölti, kanski var það sólin, mannlífið sem iðaði um götur London, ný orka og allt nýtt sem bar fyrir augun:) starfsfólk búðanna var líka svo hresst og skemmtilegt. Við vorum ótrúlega heppnar (við Þóra vinkona sem var með mér) með veður, það var frá 22-30 stiga hiti og sól allan tímann. Við vorum reyndar inni flesta daga til 17:30 eða 18:00 því við vorum þarna komnar til að sitja ráðstefnu og til að læra eða dýpa skilning okkar. Það markmið náðist heldur betur:) Þvílík ráðstefna!! Hún hafði auðvitað uppá svo margt að bjóða að hver einstaklingur gat engan vegin náð öllu svo ég þurfti að vanda valið vel. Ég gaf mér góðan tíma til að velja þó svo að ég haldi að hver fyrirlestur, námskeið, kynning eða leikrit hafi verið eitthvað sem ég hefði getað nýtt mér. Ég er svo fróðleiksfús og ég var svo ánægð með það sem í boði var að ég hreinlega fann ekki fyrir því að sitja inni frá átta á morgnana til sex á kvöldin, þrátt fyrir að sólin og hitinn freistuðu fyrir utan.
Enda fylltist ég af krafti.
Fyrir mig sem ráðgjafa þá elfdi þessi ráðstefna mig og hjálpaði mér bæði vegna þess að ég lærði eitthvað nýtt, ég fékk dýpri sýn á annað, ég fékk hvatningu til að halda áfram, ég fékk stuðning og jákvæða sýn á það sem ég er að gera og ég fékk nýja sýn á einstaklinga sem ég er að vinna með . Fyrir mig sem manneskju þá var þetta möguleiki á að læra, dýpka og vaxa og margt af því sem ég fór í gegnum var hjálp fyrir mig með hin ýmsu uppgjör samskiptalega, tilfinningalega og ég fékk betri skilning á því sem ég hef gengið í gegnum.
Ég vil gera þessa ráðstefnu að árlegum viðburði í mínu lífi.

En jæja ég þarf að rjúka núna svo ég mun halda áfram að segja frá þessum viðburðarríku dögum síðar:)

Tuesday, May 6, 2008

Næstu skref

Þegar yfirmaður starfsmanna frístundaheimilisins sagði mér að "þeir" (sem sviptu dóttur mína frelsi og beyttu hana ofbeldi) hefðu sagt þetta leik og að þetta hafi verið gert í fíflagangi þá fannst mér málið enn alvarlegra, ég var í alvöru að vonast eftir því að þeir gæfu sig fram að fyrra bragði og segðu að þeir hefðu gert alvarleg mistök.... og þegar hann (yfirmaðurinn) bætti við að hans tilfinning væri miðað við þessa frásögn, að þarna hefði fíflaskapur farið úr böndunum og haft alvarlegri afleiðingar en stóð til, þá sauð á mér.

Þessum upplýsingum fylgdi að starfsmennirnir tveir væru ekki í vinnu á meðan málið væri í rannsókn.

Ég og Amanda mín fórum í dag niðrá lögreglustöð til að láta bóka þennan atburð. Ég hafði hringt í mann hjá lögreglunni áður og ákvað aðeins að bíða til að sjá hvernig yrði tekið á málum en nú hef ég bókað málið og líður mér mun betur að vera búin að því.

Amanda mín fékk líka skýr skilaboð með því að koma með mér. Fullorðið fólk á aldrei að beita börn ofbeldi!! Ofbeldi er aldrei réttlætanlegt og það á ekki að vera hægt að fela það undir gríni eða því yfirskini að um leik sé að ræða.
Hversu gömul lumma er það.....

Ég hafði líka sent bréf til deildarstjóra barnastarfs ÍTR hjá Gufunesbæ og fékk sent bréf frá henni í gærkveldi þar sem hún sagði málið í ferli.

Ég hef fengið góðan stuðning hér í gegnum kommentin og mun ég leyfa ykkur að fylgjast með gangi mála hér á síðunni.

Nú er mér mjög mikilvægt að gefa mér tíma til að skoða mig, hvernig mér líður og hvað mér finnst, ræða málin við þá sem ég treysti, ég þarf mikið á góðri hugleiðslu að halda og ég rígheld í bænina, því nú er mér mikilvægara en oft áður að vera í góðu jafnvægi svo ég geti verið til staðar fyrir hana dóttur mína og til þess að ég hafi hugrekki til þess að taka þau skref sem ég tel að ég þurfi að taka.

Ég er á leið til London í fyrramálið á fagráðstefnu og ætla að gera mitt besta til að njóta hvers dags og hvers augnabliks. Amanda mun vera í góðum höndum á meðan og njóta sín með vinkonum og frænkum og einum frænda:)

Við eigum bara daginn í dag:) njótum hans.

Friday, May 2, 2008

Brot á trausti - ofbeldi - níðingsháttur

Litla yndislega dóttir mín varð fyrir ömurlegri reynslu í dag.

Hún var í gæslu eftir skóla og voru öll börnin farin nema hún og ein bekkjarsystir hennar. Þær voru að dunda sér í einu herberginu að lita og vantaði þeim blöð. Dóttir mín fór til þess að ná í blöð og var stoppuð á leiðinni af starfsmanni sem bað hana um að ná fyrir sig í stól. Hún gerir það, þegar hún kemur með stólinn til hans þá segir hann henni að setjast niður, hún ætlar að setjast í stólinn en hann segir henni að setjast á gólfið, hún gerir það og þá setur hann stólinn yfir hana og sest á hann. Svo segir hann öðrum starfsmanni að ná fyrir sig í vatn sem hann svo hellir á höfuðið á dóttur minni, hún biður hann um að hætta en hann hætti samt ekki. En stendur svo upp og tekur stólinn frá henni, hún fer og nær í blöðin og fer til bekkjarsystur sinnar.

ARRRGGGG.... !!!!! Hvað er að?

Þegar ég kom að sækja hana þá sagði hún mér frá þessu og var mjög aum greyjið. Þetta hafði verið henni verulega óþægileg og vond lífsreynsla.

Ég varð svo reið að ég var bara fegin að þessir starfsmenn voru ekki á staðnum, veit hreinlega ekki hvernig ég hefði látið...... nú hef ég aðeins róað mig niður en er samt mjög ósátt og reið !!

Ég er líka ótrúlega stolt af minni og ánægð með að hún hafði traust til mín og gat sagt mér hvað kom fyrir, hún gat líka sett tilfinningar sínar í orð og sá greinilega að þarna hafði fullorðinn einstaklingur farið langt yfir mörkin.

Mín dama er í 3. bekk... og mig langar ekki til þess að hugsa mikið um það ef einhver í 1. bekk hefði verið fórnarlambið eða einhver sem hefði ekki það bein í nefinu, það traust eða öryggi sem mín stelpa býr yfir.

ARRRGGGGG!!!!! Jæja þá er það komið út.

Finnst ykkur þetta í lagi?

Thursday, May 1, 2008

Árni Stefán er minn maður:)

Árni Stefán formaður SFR hélt alveg einstaklega flotta ræðu í dag, 01.05´08

Heyr, Heyr segi ég og tek í sama streng. Ég hef ekki getað sætt mig við það að stéttarskiptingin er að verða greinilegri og greinilegri og farin að hafa að mínu mati ömurlegar afleiðingar á samfélagið.. já á allt þjóðfélagið okkar.
Þegar Björgólfur fór í einkaþotu með allt sitt fólk til að halda uppá afmælið sitt, fékk ég sting í magann.. fullt af fólki nær ekki að "ná endum saman" og á ekki fyrir því allra nauðsynlegasta.

Árni orðar þetta vel í sinni ræðu „Það er ekki ásættanlegt að 2500 fjölskyldur þurfi matargjafir fyrir jólin á meðan einkaþotuliðið heldur upp á afmæli sín fyrir hundrað milljónir,"

Hann kom líka með góðar athugasemdir varðandi einkavæðingu Landsspítalans, vitiði að þegar ég heyrði þetta fyrst þá hélt ég í alvöru að fólk væri bara að grínast, ég gat bara ekki trúað því að nokkrum dytti í hug að ræða eða hugsa um þetta að alvöru.
Ég vona svo sannarlega að almenningur rísi á fætur og hafni því (eins og Árni Stefán sagði) að velferðarkerfið okkar verði afhent sem gjöf til vina og vandamanna ráðamanna.

Það sem kemur til mín þegar ég hugsa um hvernig allt snýst um að skara eld að eigin köku í pólitíkinni eru sögurnar um það þegar allt fór í vitleysu með kvótann og þegar Keflavíkurvöllur var seldur á spottprís, svona til að nefna eitthvað af þessum ringlaða dansi.

Ég hef aldrei gefið mér góðan tíma til að læra inná þessa "eftirsóttu" pólitík en ég veit eitt og það er að hún lyktar ansi illa.