Flottur pistill á baksíðu 24 stundir eftir Þóru Kristínu Ásgeirsdóttir.
Loksins sagði einhver þetta svona upphátt:)
Þóra talar um glaðar og faglegar hórur eða boðskapinn í þeim orðum;)
Hún gefur til kynna að partur af boðskapnum gæti verið sá að menn þurfi ekki að hafa samviskubit af því að kaupa vændi. Hún líkir einnig glöðum hórum við sátta eiturlyfjasjúklinga, það að vera glöð og fagleg hóra er því eins og ég skil það sama vörnin, afneitunin og réttlætingarkerfið og að vera sáttur og glaður eiturlyfjasjúklingur. Mikið er ég sammála þessu.
Þóra segir frá því að fleiri hafi leitað til Stígamóta vegna afleiðinga vændis og að sýnt hafi verið fram á að flestir sem stunda vændi glími við sömu áfallastreitu og þolendur kynferðisbrota. Þessu trúi ég vel. Ég hef fengið smá innsýn í einstaklinga sem hafa stundað vændi og lang flestir þeirra eru að fást við verulega erfiðar afleiðingar. Þegar ég tala um vændi þá á ég það til að setja strippdansara undir það orð því mér finnst það líka vera vændi. Ég sem sé hef fengið innsýn í einstaklinga sem stunda vændi með því að selja aðgang að sjálfum sér með eða án snertinga.
Ég man eftir þó nokkrum sem áttu sama mottó, ég sel samfarir en ekki kossa, og sumir selja aðgang að kossum, hlýju og snertingu en ekki beinum samförum. Nú svo eru það dansararnir sem selja ýmind, það að kveikja losta, kynlífsdrauma, þrá og oftar en ekki eitthvað meira.
Í öllum þeim tilfellum sem ég hef þekkt til eða heyrt um þá hafa þessir einstaklingar átt í tilfinninga vanda, upplifað skömm, átt erfitt með sjálfsmyndina, haft lítið sjálfstraust nema þegar kom að kynlífi og átt erfitt með að mynda tengsl eða nánd án kynlífs, fyrir utan gremjuna, reiðina og fyrirlitinguna sem virtist oft beinast að sjálfum þeim og þeim sem keyptu vændið.
Ég hef heyrt um glaða og faglegar hórur sem hafa svo endað líf sitt sjálfar og kom nú ein fram opinberlega og sagði frá því hvað hún hefði það gott og liði vel með það sem hún var að gera en stuttu síðar tók hún sitt eigið líf.
Oft hef ég heyrt um konur sem hafa verið að stunda vændi og viðmælandi minn hefur sagt með lotningu "hún gerir þetta til að halda uppi fjölskyldu sinni" eins og vændið sé stundað af góðmennsku einni saman eða að konan hafi ekki um annað að velja.
Ég veit um ótal konur hér á Íslandi hvort sem þær eru íslenskar eða ekki sem vinna hin ýmsu störf til að halda uppi fjölskyldum sínum og ég hef aldrei heyrt sagt með lotningu "hún vinnur við skúringar til að halda uppi fjölskyldunni"
Ég held að einstaklingar sem stunda vændi þurfi á hjálp að halda alveg eins og fíklar og aðrir sem fara út í sjálfskaðandi hegðun.
En eins og Þóra sagði svo vel í sínum pistli:
"Glaðar hórur, hamingjusamir þrælar, hressir eiturlyfjaneytendur. Það veitir ekki af slíkum persónum til að lappa upp á vonda samvisku"
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment