Monday, March 24, 2008

Páskar

Ég er að ná úr mér þreytu sem hefur safnast upp. Rosalega hefur mikið gengið á hjá mörgum... það er eins og það hafi bara verið innrás í hinu andlega.
Ótrúlega margir sem hafa verið að falla í neyslu eftir einhvern stuttan tíma og sumir eftir einhvern lengri tíma og aðstandendur þeirra hafa dottið í gamla bresti, gömul mynstur og gömul áföll.

Það er ótrúlega erfitt að vera fíkill sem hvorki getur verið í neyslu né verið edrú því vanlíðanin er svo mikil. Neyslan er hætt að virka sem algert deyfilyf og einmanakenndin er órjúfanlegur þáttur tilverunnar, sektarkenndin bankar uppá þrátt fyrir að maður hafi tekið auka skammt og spennan sem var í loftinu hér áður er löngu orðin að gömlum vana. Lífið er tilgangslaust, fjölskylda og vinir farnir sinn veg og uppi situr fíkillinn með sig og sína ömurlegu sjálfsmynd. Þá er uppgjöfin einhver og best er að reyna að vera edrú. Edrúmennskan er samt frekar flöt til að byrja með því ýmindin er engin og þar með varnarkerfið slakt, á bak við hvað á fíkill að fela sig í þessu nýja umhverfi þar sem það þykir ekki sérlega flott að vera með neyslustolt og neyslusögur, ný skref sem vekja óhug því þau gætu brugðist, sektarkenndin kemur sterk inn, gömul sorg og ýmsar tilfinningar sem og kunnáttuleysi til að fást við allt þetta sem leitast hefur verið við að forðast.

En það er líka erfitt að vera aðstandandi þessa fíkils. Hvað þá foreldri fíkils... úfff... já það er eitt það erfiðasta sem ég hef upplifað allavega.
Foreldrar fíkils sem er virkur í sinni neyslu eru stöðugt með dauðaógn yfir sér, þau óttast daglega að fréttir berist af dauða fíkilsins síns, að einhver hafi skaðað barnið þeirra eða að barnið hafi skaðað einhvern annan. Þessir foreldrar eru að horfa á fjölskyldumeðlim sinn, barnið sitt í mikilli vanlíðan, í aðstæðum sem eru hættulegar og þau upplifa algeran vanmátt. Samt sem áður eru þau stöðugt að velta vöngum yfir því hvað sé best að þau geri fyrir ungann sinn, hvernig sé best að þau bregðist við.... "ætti ég að taka hann heim í dag? ætli það hjálpi til?" eða "ætti ég að setja mörk og setja honum línurnar? ætli það hjálpi til?" þessar hugrenningar eru endalausar og margir foreldrar sleppa fyrirhuguðum fríum og heimsóknum þar sem þau telja að þau þurfi að vera með fíkilinn sinn í gjörgæslu eða þar sem þau þora ekki að skilja heimilin sín eftir eftirlitslaus. Því oft er sú ógn líka yfirvofandi.
Að vera foreldri fíkils kallar fram ýmsar erfiðar tilfinningar og oft eru foreldrar orðnir svo ráðþrota og þreyttir, reiðir og yfirbugaðir af sorg og vanmætti að þeir upplifa ekki elsku til fíkilsins síns og fara þá að efast um eigið ágæti. Sekt og ásökun koma upp og orkuleysið verður algert.
Ef ég ætlaði að fara að setja niður allt það sem fíklar og aðstandendur fara í gegnum þá yrðu það margar margar síður... ég skrifaði hluta af afleiðingum neyslu dóttur minnar á mig á aðeins 9 blaðsíður... svo ég ætla að stoppa hér:)

En mig langar að segja frá því að ég tel að það sé nauðsynlegt fyrir fólk að fara að opna augun fyrir því að foreldrar fíkla þurfa mikinn skilning, hlýju, ást og hvatningu. Þegar einstaklingur er að fara í gegnum þessar erfiðu tilfinningar og horfir á barnið sitt í þessari erfiðu stöðu og vanmátturinn blossar upp þar sem foreldrar geta nánast ekkert gert í stöðunni nema að fá barnavernd með sér í lið og finna úrræði sem eru oft ekki í boði og þegar þau eru í boði er það ekki víst að fíkillinn geti nýtt sér úrræðið, þá er ekki á það ástand bætandi að þurfa að vera í felum með þetta því fordómar eru svo miklir. Það er ótrúlega oft sem ég heyri að foreldrar ungmenna í neyslu upplifi sig ein í heiminum en sem betur fer heyri ég líka sögur af foreldrum sem mæta hlýju og hjálpsemi. Eitt það mikilvægasta fyrir foreldra fíkla er að stíga fram og segja frá vandanum og því þykir mér svo mikilvægt að mæta þessum foreldrum án dómhörku.
Hjarta mitt er svo sannarlega fullt af kærleik bæði til fíkla og aðstandenda þeirra og vona ég að þjóðfélagið fari smátt og smátt að átta sig á því hvað fíknisjúkdómurinn er erfiður að fást við.

Æ já það var virkilega gott að fara á afmælisfund AA samtakanna í Laugardalnum og sjá allt þetta fólk .... fullt af fólki sem var í góðum gír og í góðum málum og hellingur til viðbótar að leita eftir lausninni:)

En sem sé ég er að ná úr mér þreytu eftir að hafa verið í mikill vinnutörn. Ég hef borðað heilan helling af súkkulaði og verið duglega að borða grænmeti og túnfisksalat með:)
Ég hef verið eins mikið í náttfötunum og ég hef getað en þó skroppið aðeins í hús.
Ég fékk að ná í skvísuna mína hana Sunnevu á föstudaginn langa og vera með henni í leyfi, við fórum til Keflavíkur og hittum þar Kidda afa, Dísu og færeyjinga sem studdu hana vel á sínum tíma og gera enn:) þau sögðu mér að þau litu stundum hér inná bloggið til að fá fréttir og sagði ég þeim að ég myndi héðan í frá updeita fréttir af okkur reglulega;)
Við Sunneva og Amanda áttum virkilega góðan heilan dag saman og nutum hans allar. Við fórum saman á afmælisfundinn og var það í fyrsta sinn og örugglega ekki það síðasta;) AA og Alanon hefur gert svo ótrúlega mikið fyrir okkar fjölskyldu.

Við Amanda höfum svo verið að njóta þess að vera saman:) það er það besta við fríin:) hvað við fáum mikinn tíma saman. Við höfum verið að fara í göngutúra, kapphlaup.. sú stutta er farin að hlaupa frekar hratt... úfff... við höfum verið að spila, horfa á myndir, fá krakka í heimsókn og chilla eins og við köllum það;)

1 comment:

Anonymous said...

Hæ sæta :)
Góður pistill, vissulega er það erfitt að eiga barn sem velur að fara í neyslu. Dauðaógnin er ávalt yfir manni og þegar síminn hringir með ókunnu númeri þá fer hjartað af stað og óttinn tekur bólfestu um stund.
Það besta sem fyrir mig hefur komið er að leita mér hjálpar, gefast upp á mínum viðhorfum og treysta á dómgreind annarra. Ég þarf svo sem ekkert að segja þér það....hehehe... en tel mikilvægt að deila því með öðrum foreldrum og samfélaginu í heild sinni. Mín ósk sú að meðferðarstarf framtíðarinnar geri ráð fyrir fíklum og aðstandendum þeirra.

Kærleikskveðja til þín og þinna yndislegu dætra. Stína