Sunday, February 24, 2008

Sameinumst í bæn

Ég hef í gegnum tíðina séð ótrúlega marga einstaklinga missa tökin á sjálfum sér og á lífinu. Ég hitti á dögunum ungan pilt sem fékk mig til þess að líta í eigin barm og líta yfir farinn veg.

Þessi ungi maður var fyrir tæpu ári síðan kokhraustur, myndarlegur töffari sem sá líf sitt sem leik sem hann myndi sigra. Að hans mati lék líf hans í hans eigin höndum, fullt af öðrum ungum einstaklingum litu upp til hans og þóttu hann rosalega flottur. Hann var klár, listrænn, skapandi, sá sem framkvæmdi, sterkur, fullur af lífskrafti, hafði útlitið með sér og var mjög skemmtilegur, hann hafði þá verið edrú í stuttan tíma eftir neyslu tímabil sem honum fannst sjálfum mjög kúl.
Honum fannst hann hafa verið svalur dópari og öðrum fannst það líka:(

Ég verð alltaf svo hrygg þegar ég sé þetta viðmót, því ég hef séð svo marga gangast uppí þessu hlutverki og missa svo fótanna.

Þessi lýsing hér að ofan á við marga af mínum fyrrum vinum og félögum, stelpum og strákum sem hafa síðan dáið úr ofneyslu, sjálfsvígum eða öðru tengdu vímuefnaneyslu, eins á þessi lýsing einnig við þá sem síðar hafa misst geðheilsu sína, sumir ráfa um göturnar í eigin heimi en aðrir fá að dvelja inná geðdeildum, sumir eru inn og út úr fangelsum og reyna eftir fremstu getu að ríghalda í gamla kúlið.

Enginn þeirra sem ég hef þekkt ákvað að missa tökin, allir héldu í byrjun að þetta væri nú lítið mál, þau gætu passað sig og allir sögðust ætla að hætta áður en þetta yrði vandamál.
Enginn taldi að fiktið myndi enda illa. Þess vegna fer um mig hrollur þegar ég heyri unga fólkið í dag segja sömu setningarnar og enn frekar þegar ég heyri fullorðið fólk taka undir:/

Þessi ungi maður sem hreyfði við mér núna er kominn á stað sem ég þekki vel sjálf, þar sem einmanaleikinn gagntekur, styrkurinn er farinn, útlitið farið að láta á sjá, lífsviljinn lítill, gleðin horfin, framkvæmdargetan farin, vonleysið tekið við og óttinn ræður för.

Úfff.. hvað það er sárt að hugsa til þeirra sem voru mér samferða, upplitsdjarfir einstaklingar, kokhraustir, vissu betur, voru óhræddir töffarar sem hnignuðu og enduðu. Blessuð sé minning þeirra.

VÁ !! Hvað ég má vera þakklát.

Ég vil hvetja alla til að biðja fyrir þeim sem enn eru að þjást og eru að kljást við fíkn, eins fyrir aðstandendum þeirra.

2 comments:

Anonymous said...

Takk fyrir þennan pistil. Ég er þakklát fyrir að hafa notið leiðsagnar þinnar og bið svo sannarlega fyrir öllum þeim sem hafa fest sig í krumlu fíknar og aðstandendum þeirra.

Kærleiksknús á þig : )
Kv.Stína

Anonymous said...

Hæ elsku Díana

Ég var að spá hvert e-mailið þitt væri? Væriru til í að senda mér það á aslaugosk@simnet.is :)

Kveðja
Áslaug Ósk